Í gærkvöldi fór í loftið áttundi og síðasti þátturinn í Verbúðinni, sjónvarpsþáttum sem hafa sameinað þjóðina í nostalgíu fyrir níunda áratugnum og karpi um áhrif og gildi kvótakerfisins. Í Lestinni í dag rýnir Salvör Bergmann í þættina.
Í dag er Valentínusardagur, dagur helgaður ástinni og kapítalisma en hér í Lestinni kjósum við fremur að fagna ástinni og internetinu, nánar tiltekið Twitter þar sem nú stendur yfir niðurtalning undir myllumerkinu #regnus í fyrsta fund tveggja turtildúfna sem kynntust á forritinu. Magnús hinn færeyski sendir okkur línu og Regn, betur þekkt sem skvísumálaráðherra Twitter segir okkur ástarsöguna.
Við höldum líka upp á Akranes og ræðum við Kristján og Berg hjá nýrri útgáfu Ægisbraut sem gefur út þungt skagarokk á segulbandsspólum og stendur fyrir mis-löglegum tónleikum.