Í gær var kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein sakfelldur fyrir kynferðisbrot og -áreitni gegn tveimur konum og á líklega yfir höfði sér fangelsisvist. Mál Weinstein varð kveikjan að Metoo-hreyfingunni fyrir rúmlega tveimur árum. Menningarleg úrvinnsla á þeim atburðum er nú í fullum gangi í bókum, kvikmyndum og sjónvarpi. Rætt verður við Þóru Tómasdóttur, fjölmiðlakonu, um Metoo og menningarlega úrvinnslu.
Við röltum um kirkjugarð í Los Angeles með kvikmyndagerðarmanninum Erlingi Óttari Thoroddsen. Við ræðum um nýja mynd hans Midnight Kiss sem hann skrifaði fyrir streymisveituna Hulu og hugmyndina að elta drauma sína.
Og Halldór Armand Ásgeirsson flytur okkur pistil að venju á þriðjudegi. Í þetta sinn fjallar hann um óhamingjusömustu þjóð Evrópu.