Það er um lítið annað talað í tölvuleikjaheimum þessa dagana en Elden Ring. Leikurinn sem kom út í lok febrúar hefur selst í bílförmum og fengið nánast einróma lof gagnrýnenda er nýjasta afurðin frá fyrirtækinu FromSoftware og tövuleikjahönnuðinum Hidetaka Miyasaki sem er þekktur fyrir einstaklega erfiða leiki og þar er Elden Ring engin undantekning. Nú rökræðir fólk hvort tölvuleikir eigi að vera aðgengilegir öllum eða mega þeir vera svo strembnir að aðeins þeir geta notið þeirra sem gefa sér tugi ef ekki hundruði klukkustunda í spilunina. Davíð Kjartan Gestsson segir frá.
Sverrir Norland kemur svo um borð í Lestina og flytur sinn annan pistil af fjórum um athyglisgáfuna og hvernig er stöðugt verið að grafa undan henni. Í dag skoðar hann hvernig tónlistarsjónvarpsstöðin MTV var brautryðjandi í því að selja aðgang að athygli okkar, þegar stöðin hætti að sýna bara tónlistarmyndbönd og hóf að framleiða höfundalausar sápuóperur, það sem hefur seinna fengið nafnið raunveruleikasjónvarp.
Við ræðum við Steinunni María Bragadóttir, 25 ára rappara og vloggara frá Neskaupsstað. Steinunn sem kallar sig Ztonelove gerir plötukoverin sjálf, mamma hennar tekur upp myndböndin hennar, hún kaupir takta á netinu og hún er fullkomlega sjálfsstæð. Lóa spjallar við hana um tónlistina og lífið í Neskaupsstað