Danir eru meðal þeirra NATO-þjóða sem hafa ákveðið að auka mjög útgjöld til varnarmála og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu þann 1. júní um hvort Danir verði áfram utan sameiginlegrar stefnu Evrópusambandsins í varnarmálum. Sú undanþága felur í sér meðal annars að Danir taka ekki þátt í sameiginlegum hernaðaraðgerðum eða varnaráætlunum sambandsins á nokkurn hátt - en að standa utan þýðir líka að þeir eru ekki með í ákvarðanatöku og hafa engin áhrif. Framlög til varnarmála verða aukin um 18 milljarða danskra króna og eiga að verða orðin tvö prósent af vergri landsframleiðslu árið 2033.
Stærstu flokkar Danmerkur náðu samkomulagi um þetta í síðustu viku; Jafnaðarmenn, Venstre, Radikale Venstre, Íhaldsflokkurinn og Sósíalíski þjóðarflokkinn. Þetta gekk svo hratt fyrir sig að ekki virðist sem tími hafi verið til að ráðgast við hin löndin í danska ríkissambandinu, Færeyjar og Grænland. Aukinn varnarviðbúnaður verður þó án nokkurs efa að miklu leyti á Norður-Atlantshafinu. Þetta vakti gremju, ekki síst á Grænlandi.
Þetta var meginumræðuefni Heimsgluggans þar sem Guðrún Hálfdánardóttir og Sigríður Halldórsdóttir ræddu erlend málefni við Boga Ágústsson. Þau ræddu líka kosningar sem verða í Ungverjalandi og Serbíu 3. apríl en þar er útlit fyrir að engar breytingar verði, Viktor Orbán og Aleksandar Vucic verði áfram leiðtogar Ungverjalands og Serbíu.