Í Skírni 1934 birti Eiður S. Kvaran grein þar sem hann fjallar ítarlega um útlitslýsingar í fornsögum vórum, og kemst að þeirri niðurstöðu að hér hafi raunar verið á ferðinni á landsnámsöld fleiri en eitt „kyn“ eins og dæma megi af útlitslýsingunum. Samantekt Eiðs er vissulega fróðleg í sjálfu sér, en það merkilega er að hann var nasisti og trúði því statt og stöðugt að „ljósa fagra kynið“ væri æðra hinu „svarta og ljóta“ sem hann segir höfunda Íslendinga lýsa.
Ritgerðin í Skírni lýsir því ekki aðeins fordómum Íslendingasagnahöfunda, heldur líka hættulegum fordómum Eiðs sjálfs og þeirra sem aðhylltust „mannkynbótastefnuna“.