Þórunn Elísabet Bogadóttir og Bogi Ágústsson fjölluðu um kappræður varaforsetaefna stóru flokkanna í Bandaríkjunum. Þær eru venjulega ekki það sem vekur mesta athygli fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum en þegar forsetaefnin eru bæði á áttræðisaldri, Trump er 74 ára og Joe Biden 77 ára og heilsa forsetans nokkuð spurningamerki, hljóta kjósendur eðlilega að hafa áhuga á þeim sem yrðu mögulega eftirmenn þeirra. Hingað til hafa þessar umræður ekki haft afgerandi áhrif á kosningabaráttuna og ólíklegt er að svo verði að þessu sinni.
Þá ræddu þau Þórunn Elísabet og Bogi um lagafrumvarp sem breska þingið hefur nú til meðferðar og leyfir leyniþjónustustofnunum að fara á svig við eða hreinlega brjóta lög. Þingmenn í neðri málstofunni samþykktu það í fyrstu umræðu. ,,The covert human intelligence resources bill" er nafn frumvarpsins. Það á að auðvelda starfsmönnum leyniþjónustunnar að smygla sér inn í hryðjuverka- og glæpasamtök. Auðvitað varð ýmsum hugsað til James Bond, sem samkvæmt bókum og kvikmyndum, hefur „license til kill“, leyfi til að drepa. James Brokenshire, sem er ábyrgur ráðherra í bresku ríkisstjórninni og mælti fyrir frumvarpinu, sagði að þessar aðferðir leyniþjónustunnar hefðu komið í veg fyrir hryðjuverkatilræði við Theresu May þáverandi forsætisráðherra árið 2017. Enginn fengi þó „license to kill“.