Um næstu mánaðamót verða bæði útlendingar og Íslendingar sem koma til landsins að greiða 15 þúsund krónur fyrir skimun, velji þeir að fara ekki í 14 daga sóttkví.
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar hefur áhyggjur af að skimunargjaldið verði til þess að þeir sem áttu bókaðar ferðir hætti við að koma til Íslands. Vegna þessa nýja gjalds, sé mögulegt að afbóka án þess að greiða afbókunargjald.
Tvær danskar ferðaskrifstofur sem sérhæfa sig í ferðum til sólarlanda eru byrjaðar að bjóða pakkaferðir til Íslands og Færeyja.
Árangurslaus samningafundur var í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og ríkisins í dag. Sáttasemjari sér ekki ástæðu til að boða nýjan fund að svo stöddu. Hjúkrunarfræðingar hafa boðað verkfall frá 22. júní.
Undanfarna sex mánuði fjölgaði mest í Siðmennt og mest var fækkunin í Þjóðkirkjunni. Yfir 50 trúfélög eru skráð á Íslandi.
Fyrsta skrefið að því að opna landamæri Íslands verður stigið eftir viku, 15. júní. Í mjög stuttu máli verða allir sem koma til landsins skimaðir fyrir kórónuveirunni eða þeir sem kjósa að fara ekki í sóttkví. Hún verður ókeypis fystu tvær vikurnar en eftir það verða ferðamenn að greiða 15 þúsund krónur. Landamæri Íslands hafa reyndar verið opin frá því að veiran byrjaði að herja hér en allir sem hafa komið og koma til landsins hafa þurft að fara í 14 daga sóttkví. Arnar Páll Hauksson talar við Bjarnheiði Hallsdóttur.
Tölur um COVID-19 smit og dauðsföll meðal heilbrigðisstarfsfólks er eitt af því sem Alþjóða heilbrigðisstofnunin telur brýnt að kanna og draga lærdóm af, meðal annars til að draga úr smithættu og efla öryggi heilbrigðisstarfsfólks. Upplýsingum um smit í þessum hópi er ekki safnað á Íslandi. Sigrún Davíðsdóttir segir frá.