Spegillinn 16. mars Umsjón Arnar Páll Hauksson Tæknimaður Ragnar Gunnarsson Aðstandendur geta, með ströngum skilyrðum, heimsótt íbúa á hjúkrunarheimilum frá og með 4. maí. Aðeins einn getur komið í heimsókn í einu. Stjórnvöld kynna reglurnar í næstu viku. Margir upplifa félagslega einangrun og einmanaleika í samkomubanni vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta sagði starfsmaður Rauða krossins á fundi almannavarna í dag. Það sé engin skömm að upplifa einmanaleika. Sænskir þingmenn heimiluðu í dag ríkisstjórn landsins til að grípa til aðgerða til að hamla útbreiðslu kórónuveirunnar, án þess að leggja þær fyrst fyrir þingið. Reiði ríkir meðal þingmanna stjórnarandstöðunnar yfir því að forseti Alþingis hafi sakað þá um að vilja ekki eiga samtal við ríkisstjórnina um þingmál. Dómstólar hafa úrskurðað þremenninga, sem voru sakfelldir fyrir framleiðslu á átta kílóum af amfetamíni í Borgarfirði, í áframhaldandi gæsluvarðhald á meðan mál þeirra er til meðferðar fyrir Landsrétti. Kórónuveirufaraldurinn gefi ekki ástæðu til að láta mennina lausa. Heimsóknir aðstandenda til íbúa á hjúkrunarheimilum verða leyfðar með ströngum skilyrðum frá og með 4. maí. Aðeins einn fær að koma í heimsókn í einu. Vinnuhópur á vegum stjórnvalda og hjúkrunarheimila leggur þetta til. Tillögur hópsins verða kynntar nánar um miðja næstu viku. Pétur Magnússon forstjóri Hrafnistu og formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu er í vinnuhópnum. Kristján Sigurjónsson talar við Pétur Magnússon og Þórunni Sveinbjörnsdóttur. Almannaheill regnhlífarsamtök þriðja geirans eða ekki hagnaðardrifinna samtaka hvetur aðildarfélög sín til að leggjast á sveif með yfirvöldum í að draga úr áhrifum veirufaraldursins. Samtökin hvetja líka önnur samtök, stofnanir, fyrirtæki og almenning til að gera það líka. Arnar Páll Hauksson talar Jónas Guðmundsson formann Almannaheilla. Það er fátt um góðar efnahagsspár þessar vikurnar. Bresk stofnun, Office for Budget Responsibility hefur gefið út sviðsmynd, frekar en spá, fyrir Bretland, sem fékk marga til að hrökkva í kút. Forsendurnar skipta þó miklu og ekki endilega ljóst hverjar eru þær réttu. Kannski má segja að fuglasöngur sé óformleg vísbending um hægaganginn í hjólum atvinnulífsins. Sigrún Davíðsdóttir segir frá.