Alþingi kemur saman á þriðjudag í næstu viku.
Landspítalinn hefur þurft að fresta hundruðum aðgerða frá því spítalinn var færður á hættustig fyrir hálfum mánuði.
Kvikusöfnun á miklu dýpi veldur nú landrisi á Reykjanesi. Óljóst er hvort, og þá hvenær, hún brýtur sér leið upp á yfirborðið.
Skólum hefur verið lokað og slökkt á nokkrum kolakyntum raforkuverum í höfuðborg Indlands. Loftmengun í borginni er langt yfir hættumörkum.
Lengri umfjallanir (frá mín 10)
Fasteignamarkaðurinn verður hættur að búa til verðbólgu næsta vor að mati seðlabankastjóra. Bankanum beri að hemja verðbólguna og hann segir það öfugmæli að verkalýðshreyfingin mótmæli stýrivaxtahækkunum sem eigi að tryggja kaupmátt. Anna Kristín Jónsdóttir ræddi við Ásgeir Jónsson.
Hagfræðiprófessor segir að líklega þurfi að endurskipuleggja hvernig vörur eru framleiddar og fluttar heimshorna á milli. Krísan í aðfangakeðjunni skýrist að hluta til af því að fyrirtæki hafi spáð rangt fyrir um hegðun neytenda. Arnhildur Hálfdánardóttir ræðir við Þórólf Matthíasson, hagfræðiprófessor og Magnús Óla Ólafsson, forstjóra Innness.
Breskir háskólar eru háðir gjöfum og styrkjum. Það ýtir til dæmis undir kínversk áhrif á háskólana og getur grafið undan akademísku frelsi. Sigrún Davíðsdóttir rýnir í þetta mál.