Karlmaður á fertugsaldri lést þegar hann rak frá landi eftir að hafa verið að synda í heitu útfalli frá Reykjanesvirkjun ásamt þremur öðrum á sunnudag. Lögregla ítrekar að sjóböð við Reykjanesvirkjun séu stranglega bönnuð. Sóttvarnalæknir leggur til að samkomutakmarkanir verði viðhafðar á meðan heimsfaraldur geisar. Undanþágu verður hægt að fá frá 200 manna samkomutakmörkunum. Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvort farið verði eftir tillögum hans. Svartsýnasta spá Landspítalans gerir ráð fyrir að fleiri en tíu liggi á gjörgæslu með covid í einu undir lok mánaðarins. Landspítali hefur leitað til starfsmannaleiga í Evrópu til að leysa mönnunarvanda spítalans. Dæmi eru um að fólk sem fékk covid í fyrri bylgjum faraldursins hérlendis hafi veikst aftur í þessari bylgju. Það er þó jafnan með væg einkenni. Formaður Landssambands veiðimanna segir hita, þurrka og lélega endurheimt úr sjó vera aðalástæður þess að veiðisumarið hefur verið heldur dapurt víðast hvar. Það hafi þó ekki haft áhrif á sölu veiðileyfa. Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, var harðlega gagnrýndur í breska þinginu í dag. Margir þingmenn eru ósáttir við að Bretar hafi farið með herlið sitt frá Afganistan. Sigrún Davíðsdóttir sagði frá. Eftir 20 ára veru Bandaríkjamanna og annarra í Afganistan, mikinn fjáraustur og þjálfun öryggissveita völtuðu Talíbanar yfir stjórnarherinn. Fjölmargar ástæður eru týndar til, ein er sú að flækjustig við að þjálfa erlenda heri með ólíkan bakgrunn sé einfaldlega afar hátt. Ragnhildur Thorlacius sagði frá. Í fjórtán ár þjálfuðu Norðmenn sérsveitir afgönsku lögreglunnar ? úrvalsliðið sem átti að halda liðsmönnum Talibana í skefjum á komandi árum. Þjálfun var lokið en þetta lið lét sig hverfa þegar á hólminn kom og veitti enga mótspyrnu. Norðmenn undrast nú hvað kom eiginlega fyrir. Gísli Kristjánsson segir frá.