Lyfjastofnun hefur fengið þrjár tilkynningar um andlát fólks sem var bólusett við Covid-19 í síðustu viku . Rúna Hvannberg Hauksdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar segir ekkert benda til þess að þar sé orsakasamhengi en þetta verði skoðað. Anna Lilja Þórisdóttir talaði við hana.
Vel er hægt að samræma guðs lög og sóttvarnareglur segir Jakob Rolland kanslari biskupsdæmis kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Hann segir að hugsanlega verði gerðar breytingar á messuhaldi kirkjunnar á virkum dögum vegna fjöldatakmarkana, en messum um helgar hefur verið aflýst.
Fimm skip halda í dag til loðnumælinga norður af landinu. Birkir Bárðarson leiðangursstjóri segir ákveðnar væntingar og margt hafi bent til þess að meira sé af veiðanlegri loðnu en síðasta ár. Ágúst Ólafsson talaði við hann.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra segist hafa orðið vitni að brotum á fjöldatakmörkunum í sundlaugum og dapurlegt sé að gera starfsfólki að þurfa að ganga á milli og skamma fólk.
Fjölmargir íbúar í Reykjavík tóku ekki til eftir sig eftir áramótin og flugeldarusl lá á víð og dreif um borgarlandið. Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri reksturs og umhirðu Reykjavíkurborgar, segir ljóst að margir þurfi að taka sig á í þessum efnum. Jóhann Bjarni Kolbeinsson ræddi við hann.
--------------
Nýr kafli er að hefjast í baráttunni við kóronuveirufaraldurinn. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á fyrsta almannavarnafundi ársins í morgun að sín von væri að þetta yrði lokakaflinn og að hægt verði að slaka á sóttvarnaráðstöfunum í næstu viku. Samantekt af máli Þórólfs á fundinum og Ölmu Möller, landlæknis. Anna Kristín Jónsdóttir tók saman.
Í Skotlandi verður í gildi allsherjar lokun frá miðnætti og það eykur þrýsting á bresku stjórnina að grípa til róttækra ráða. Sigrún Davíðsdóttir segir frá. Heyrist í Boris Johnson, Matt Hancock og Keir Starmer.
Hjálparstarf kirkjunnar hefur um árabil unnið með sjálfsþurftarbændum á miklu þurrkasvæði í Sómalí-fylki í Eþíópíu. Samvinnuþróunarverkefni þar fékk nýlega styrk til fjögurra ára frá utanríkisráðuneytinu. Fénu á að verja í að grafa brunna og regnþrær til að bæta aðgengi að vatni og auk þess er lögð áhersla á að tryggja réttindi kvenna og stúlkna. Anna Kristín Jónsdóttir ræddi við Bjarna Gíslason, framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins.
Umsjón: Anna Kristín Jónsdóttir. Tæknimaður: Ragnar Gunnarsson. Stjórn útsendingar fréttahluta: Björg Guðlaugsdóttir