Jarðskjálfti að stærðinni 6,4 sem reið yfir í miðhluta Króatíu í dag varð að minnsta kosti fimm að bana.
Fleiri COVID-19 sjúklingar eru á sjúkrahúsum á Englandi en þegar fyrsta bylgja faraldursins var í hámarki í apríl. Nýjar ráðstafanir til að hefta útbreiðslu veirunnar verða kynntar á morgun.
Sóttvarnalæknir segir að ekki sé á þessu stigi ástæða til að herða sóttvarnaaðgerðir gagnvart þeim sem koma til Íslands frá Bretlandi.
Starfsmenn Veðurstofunnar eru nú að meta aðstæður í hlíðum Seyðisfjarðar og hvort tilefni er til að ákveða frekari afléttingu rýmingar í bænum.
Kórónuveirufaraldurinn virðist lítil áhrif hafa haft á jólagleði landsmanna og tilhlökkun þeirra. Svipaður fjöldi hlakkaði til jólanna í ár og undanfarin ár.
Ég held að árið 2021 verði ár fjölskyldunnar, þetta segir Anna Birna Jensdóttir, hjúkrunarforstjóri á hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Íbúar heimilisins verða bólusettir á morgun, og það stendur til að flagga og baka köku. Anna Birna segir að árið 2020 hafi verið lærdómsríkt og ólíkt öllum öðrum sem hún hefur upplifað á löngum ferli, sumt í starfinu eigi í ljósi reynslunnar frá veirutímanum eftir að breytast til frambúðar. Hún leyfir sér að vona að hægt verði að lyfta hömlum af hjúkrunarheimilum strax í febrúar. Arnhildur Hálfdánardóttir talaði við Önnu Birnu Jensdóttur. Einning heyrist í Þorleifi Haukssyni sem fékk fyrstu bólusetninguna.
Þjóðleikhússtjóri stefnir að því að nýtt íslenskt verk verði frumsýnt í janúar ef sóttvarnareglur leyfa það. Hann segir að tíminn hafi verið nýttur vel í leikhúsinu til þess að verða sannarlega tilbúin að taka á móti leikhúsgestum á ný. Arnar Páll Hauksson talar við Magnús Geir Þórðarson.
,,Fagnið nýja árinu ein heima“ - þetta er áramótaboðskapur breskra yfirvalda til landsmanna. Megnið af landinu sætir nú hörðum samkomubönnum. Met nýrra tilfella í gær, 41 þúsund tilfelli, var slegið í dag þegar ný tilfelli fóru yfir 53 þúsund. Nú telja ýmsir vísindamenn að ekkert dugi annað en hart bann fyrir allt landið, enn eitt hástigið, sem bætist ofan á fyrri bönn, þó enn sé stefnt á að halda skólunum opnum. Sigrún Davíðsdóttir segir frá.