Björn Þór Sigbjörnsson og Bogi Ágústsson ræddu mest öskubuskuævintýri færeyska knattspyrnuliðsins KÍ í forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Klaksvíkar Ítróttarfelag hefur slegið út ungversku meistarana Ferencváros og sænsku meistarana BF Häcken í forkeppni Meistaradeildarinnar. Þeir unnu fyrri leik sinn við norsku meistarana í Molde og hvernig sem fer þá hefur KÍ tryggt sér þátttökurétt í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu.
Í lokin var rætt um blómlegt efnahagslíf á Írlandi þar sem stefnir í mikinn afgang á rekstri ríkissjóðs næstu árin. Írar fóru illa út úr efnahagskreppunni 2008 en hafa heldur betur rétt úr kútnum. Ein helsta tekjulind ríkissjóðs Írlands eru skattar af alþjóðlegum fyrirtækjum eins og Facebook eða Meta, Google, Airbnb og Twitter. En þrátt fyrir blómlegan ríkisrekstur eiga Írar við ýmis vandamál að stríða, verulegur húsnæðisskortur og misskipting auðæva er meðal helstu vandamála.
Í lokin heyrðum við Dubliners flytja lagið A nation once again sem var samið um miðja 19. öld þegar Írland var hluti Stóra-Bretlands en Írar létu sig dreyma um að verða sjálfstæð þjóð að nýju.