Íbúar í húsum sem rýmd voru á Siglufirði í gær fá ekki að snúa heim að svo stöddu. Hættustig vegna snjóflóðahættu á Siglufirði gildir áfram.
Neysla landsmanna um jólin var meiri en verið hefur frá upphafi mælinga. Minni veikindi voru bæði í haust og í lok síðasta árs, líklega vegna sóttvarna. Þetta kemur fram í Samfélagsmælikvarða Gallups.
Nýútskrifaðir talmeinafræðingar fá ekki að vinna samkvæmt rammasamningi við Sjúkratryggingar fyrr en að tveimur árum liðnum. Formaður félags þeirra segir 600 börn bíða eftir þjónustu.
Það kom öllum á óvart hversu stór og mikill Covid-19 faraldurinn varð segir Geir Gunnlaugsson prófessor í hnattrænni heilsu við Háskóla Íslands og fyrrverandi landlæknir. Nú standi heimsbyggðin öll, og sérstaklega ríkari lönd, frammi fyrir siðfræðilegum spurningum um forgangsröðun í bólusetningu. Senn verður eitt ár liðið frá því að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna kórónuveirunnar. Kristján Sigurjónsson talaði við Geir Gunnlaugsson.
Íslenskur sálfræðingur, sem starfar í London, segir að takmarkanir sem gripið hefur verið til í Bretlandi hafi haft gríðarlega mikil áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu fólks. Þórdís Arnljótsdóttir talar við Björgu Sigríði Hermannsdóttur sálfræðing í London.