Sexmenningarnir sem grunaðir eru um stórfelld lögbrot í kvótabraski í Namibíu hafa allir verið ákærðir, og úrskurðaðir í varðhald fram í febrúar.
Amnesty International segir að yfir tvö hundruð hafi fallið í óeirðum í Íran í síðasta mánuði. Öryggissveitir skutu flesta til bana.
Bæði Miðflokkurinn og Píratar bæta við sig fylgi í nýjum þjóðarpúlsi Gallups á meðan saxast á fylgi Samfylkingarinnar.
Hlýtt hefur verið miðað við árstíma víða um land, fór í tæp fimmtán stig á Stafá. Spáð er hvassviðri eða stormi á Norðurlandi eystra og gul viðvörun í gildi fram undir hádegi á morgun.
Bátur sem var í eigu útgerðarfyrirtækis Guðmundar Gísla Geirdal, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi sem dæmdur var til að greiða þrotabúi útgerðarinnar 50 milljónir króna vegna gjafagjörnings, er nú skráður á son hans.
Allir vextir af handbæru fé ofanflóðasjóðs renna í ríkissjóð. Tekjur sjóðins eru mun hærri en útgjöld sem Alþingi ákveður og hefur hlaðist uppbókærð eign upp á hátt í 14 milljarða.
------------
Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að þjóðir heims þurfi að sýna að þeim sé alvara í loftslagsmálum. Mannkynið standi á krossgötum og geti nú annaðhvort valið leið vonar eða uppgjafar. Tuttugasta og fimmta loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hófst í morgun.
Kjarasamningar opinberra starfsmanna hafa nú verið lausir í átta mánuði. Óvíst er hvort samið verði fyrir áramót.
Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu tilkynnti í gær um afsögn sína en um leið að hann hyrfi ekki úr embætti fyrr en í janúar. Það er ekki liklegt að sú tilkynning dugi til að draga úr óánægjubálinu sem logað hefur á eyjunni vegna ásakana um spillingu og yfirhylmingu á æðstu stöðum í tengslum við rannsókn á morði blaðakonunnar Daphnear Caruana Galizia að mati Dóru Blöndal Mizzi sem hefur búið áratugum saman á Möltu.
Umsjón: Anna Kristín Jónsdóttir. Tæknimaður: Ragnar Gunnarsson. Útsendingu stjórnaði Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir