Fjórir eru alvarlega slasaðir eftir harðan árekstur jeppa og jepplings við Háöldukvísl á Skeiðarársandi um tvö leytið í dag. Níu manns voru í bílunum tveimur og var hópslysaáætlun lögreglunnar á Suðurlandi virkjuð.
Fjármálaráðherra og umhverfisráðherra ætla að fara yfir áætlanir um uppbyggingu snjóflóðavarna með það að markmiði að flýta framkvæmdum. Þetta var ákveðið á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, segir hæstaréttarlögmann brigsla sér um saknæmt athæfi í greinargerð til yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu. Dómstóllinn hefur hafnað ósk hennar um að svara lögmanninum.
Efling hefur lagt fram kröfur um að laun hækki talsvert umfram lífskjarasamninginn og að desemberuppbót verði nærri 400 þúsund krónur.
Íslendingar töpuð fyrir Slóvenum í fyrst leik milliriðilsins í Evrópukeppninni í handbolta í dag.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, ætla að fara yfir áætlanir um uppbyggingu snjóflóðavarna með það að markmiðið að flýta framkvæmdum. Þetta var ákveðið á ríkisstjórnarfundi í morgun. Ráðherrunum finnst skjóta skökku við að gjald sé innheimt í ákveðnum tilgangi en hluti þess svo notaður í eitthvað annað. Arnhildur Hálfdánardóttir segir frá og ræðir við ráðherrana.
Efling fer fram á að desemberuppbót verði tæpar 400 þúsund krónur og vill að laun félagsmanna sinna hjá Reykjavíkurborg hækki talsvert meira en samið var um í lífskjarasamningnum í vor. Einn viðmælandi Spegilsins segir að ef kröfur félagsins næðu fram að ganga myndi launamarkaðurinn springa í loft upp. Arnar Páll
Hauksson segir frá.
Breska flugfélagið Flybe er ekki þekkt nafn utan Bretlands en tæplega tvö af hverjum fimm innanlandsflugum eru á vegum félagsins. Fyrir ári var því bjargað af hópi fjárfesta, þar á meðal Virgin Air. Nú virðist sem sú björgun hafi ekki dugað nema árið og Flybe aftur í kröggum. Þetta leiðir hugann að íslenskum aðstæðum og flugfélaginu Wow, sem reynt er að endurreisa. Sigrún Davíðsdóttir segir frá.