Hugsanlegt er að Alþingi þurfi að skipa formlega rannsóknarnefnd sem hefði víðtækari heimildir en nefndir á vegum Reykjavíkurborgar, til þess að skoða málefni Arnarholts. Þetta er bráðabirgðaniðurstaða borgarlögmanns.
Heilbrigðisráðherra segir mikilvægt að fara í saumana á málum Arnarholts.
Nýtt riðusmit hefur greinst í Skagafirði. Riðuveiki hefur nú verið greind á fimm bæjum.
Félagsmálaráðherra segir að ríkisstjórnin kynni á næstunni frekari aðgerðir til að koma til móts við þá sem eru atvinnulausir.
Stjórnvöld í Svíþjóð hafa samið við þrjá lyfjaframleiðendur um bóluefni gegn kórónuveirunni. Það á að duga til að bólusetja alla sænsku þjóðina.
Færri tilfelli af klamydíu greindust hér á landi í fyrra en árið áður. Ísland er þó enn það land í Evrópu þar sem fjöldi tilkynntra klamydíusýkinga er hlutfallslega mestur.
Smitsjúkdómum í Noregi fækkaði um rúman helming síðust tvær vikurnar í október. Vísbendingar eru um að dregið hafi úr dauðsföllum af völdum lungna- og hjartasjúkdóma í Noregi frá því kórónuveirufaraldurinn braust út. Svipuð þróun virðist vera hér á landi. Arnar Páll ræðir við Guðrúnu Aspelund.
Fregnir síðustu daga um að góður árangur hafi náðst hjá tveimur stórum lyfjafyrirtækjum í þróun bóluefnis hefur vakið þá von í brjósti margra að það sjái fyrir endann á Covid faraldrinum og að líf komist í eðlilegt horf á vormánuðum. Spegillinn ræddi í dag við Skarphéðinn Berg Steinarsson Ferðamálastjóra um horfurnar í ferðaþjónustunni. Kristján Sigurjónsson talar við Skarphéðinn Berg Steinarsson.
Þjóðverjar standa frammi fyrir enn harðari sóttvarnaaðgerðum en hingað til. Illa gengur að ráða niðurlögum kórónuveirufaraldursins þrátt fyrir að þar séu þegar í gildi miklar takmarkanir, allar krár hafi skellt í lás og veitingastaðir séu lokaðir. Rætt er um að biðja fólk um að halda engin einkasamkvæmi fram að jólum, ungt fólk takmarki samgang í frítíma við einn vin, fjölskyldur umgangist í mesta lagi fólk af einu öðru heimili og þeir sem sýni jafnvel minnstu kvefeinkenni verði beðnir um að halda sig til hlés í að minnsta kosti fimm daga. Sýnist sitt hverjum og er ekki alveg ljóst hve langt verður gengið en en nýjar auglýsingar frá þýskum stjórnvöldum sem hampa hetjum baráttunnar við kórónuveiruna hafa vakið sterk viðbrögð. Anna Kristín Jónsdóttir sagði frá.