Björn Þór Sigurbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir ræddu að þessu sinni ástandið í Hvíta-Rússlandi og flokksþing Demókrata í Bandaríkjunum við Boga Ágústsson í Heimsglugganum. Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, hefur boðað að hart verði tekið á mótmælum í landinu en undanfarna daga hafa landsmenn fengið að mótmæla meintu svindli í forsetakosningum tiltölulega óáreittir. Lögregla og öryggissveitir reyndu að berja fyrstu mótmælin niður af mikilli hörku og grimmd þar sem fólk, sem var handtekið, var pyntað og barið. Við heyrðum í fréttamanni sænska ríkissjónvarpsins í Rússlandi sem ekki gerir ráð fyrir að Lúkasjenkó geti haldið völdum til langframa en fari sennilega hvergi á næstu dögum.
Á flokksþingi Demókrata hefur verið veist hart að Donald Trump forseta og hann sagður óhæfur á alla lund. Barack Obama, fyrrverandi forseti, var ómyrkur í máli er hann ræddi embættisfærslu eftirmanns síns.