Sóttvarnalæknir mælir með hertum aðgerðum í minnisblaði sem hann skilaði til heilbrigðisráðherra í dag. Hann segir að aðgerðirnar þurfi að vera skýrar og megi ekki valda óvissu.
Vegna hópsýkingarinnar á Landakoti hefur verið ákveðið að skima starfsmenn Landspítalans með skipulögðum hætti.
Smitrakningarteymi almannavarna vinnur við að rekja þrjár hópsýkingar sem hafa komið upp síðustu daga í þriðju bylgju faraldursins - á Landakoti, í Ölduselsskóla og á Akureyri.
Icelandair ber að greiða flugfarþegum bætur sem komu fimm klukkustundum of seint á leiðarenda þar sem flugi var aflýst. Þetta er niðurstaða Samgöngustofu.
Frambjóðendur í forsetakosningunum í Bandaríkjunum reyna hvað þeir geta að höfða til kjósenda í Flórída. Báðir boða til funda þar í dag.
Hársnyrtar, snyrtifræðingar og fleiri, sem gert var að loka, bíða enn eftir mótvægisaðgerðum frá stjórnvöldum. Óþreyju er farið að gæta hjá þeim nú þegar líður að mánaðamótum.
Í nýrri rannsókn á íslenska fíkniefnamarkaðinum kemur fram að auðvelt er að selja og nálgast vímuefni með því að nota snjallforrit. Þar kemur einnig fram að seljendur óttast ekki mikið afskipti lögreglu. Ágóðinn af sölunni vegi þyngra en afleiðingarnar. Félagsfræðingur sem gerði rannsóknina segir að um háar peningaupphæðir sé að ræða á íslenska fíkniefnamarkaðinum. Arnar Páll Hauksson talaði við Söru Mjöll Vatnar Skjaldardóttur.
Mesta atvinnuleysi í fjörutíu ár mælist nú í Bretlandi og það bitnar einkum á ungu fólki. Þessar og aðrar ógóðar fréttir dynja á Bretum eins og fleirum en þær hafa fallið í skuggann af deilum um mat í skólafríum handa börnum efnalítilla foreldra. Marcus Rashford er frægur á fótboltavellinum en hann hefur einnig tekið forystu í þessu máli sem ýmsir segja að hafi orðið sjálfsmark ríkisstjórnarinnar. Sigrún Davíðsdóttir sagði frá.
Nýbirt tölvugögn í Noregi sýna að olíuráðherra landsins afskrifaði alla leit að olíu á Drekasvæðinu við Jan Mayen á sama tíma hann heimilaði olíuleit austur í Barentshafi - á svæði sem var talið vonlaust. Gögnin þykja sýna að ákvarðanir ráðherra hafi ráðist af geðþótta og að hann hafi leynt óhagstæðum upplýsingum. Gísli Kristjánsson sagði frá.