Í lok árs verður tekið í notkun nýtt bóluefni gegn malaríu, Mosquirix. Búist er við að bólusetning geti bjargað tugþúsundum barna í Afríku þó að Mosquirix verji aðeins um 30 prósent. Vonir standa til að annað bóluefni, R21/Matrix-M, verði tilbúið innan fárra missera en tilraunir benda til þess að það verji í 77 prósentum tilfella. Malaría verður allt að hálfri milljón barna undir fimm ára aldri að aldurtila árlega í Afríku. Illa hefur gengið að þróa bóluefni gegn malaríu en engu að síður hefur náðst verulegur árangur á undanförnum árum í baráttunni við sjúkdóminn, ekki síst með því að fækka moskító-flugum sem dreifa smitinu. Þannig hefur Kínverjum tekist að útrýma malaríu og dauðsföllum í heiminum fækkaði um 60 af hundraði frá árinu 2000 til 2015.
Þetta var meðal þess sem Björn Þór Sigbjörnsson og Vera Illugadóttir ræddu við Boga Ágústsson í Heimsglugga vikunnar. Þau ræddu einnig aukakosningar í Bretlandi í þremur kjördæmum. Hart er sótt að Íhaldsflokknum í þeim öllum, Verkamannaflokkurinn gæti unnið í tveimur og líklegt er að Frjálslyndir demókratar vinni í því þriðja. Þá ræddu þau að Rússar vildu ekki endurnýja samning um kornútflutning og hafa byrjað að ráðast á Odesa, helstu hafnarborg Úkraínu, og hafa eyðilagt hafnarmannvirki og 60 þúsund tonn af korni sem biðu útflutnings. Pútín hefur sagt að Rússar áskilji sér rétt til að ráðast á öll fragtskip sem eru á leiðinni til Úkraínu, því Rússar telji þau styðja Úkraínustjórn og hugsanlega vera að flytja vopn til Úkraínu.
Í lokin var rætt um hlaðvarpsþætti sem fjalla um erlend málefni. Bogi nefndi The Intelligence sem er daglegt hlaðvarp um þrennt sem er efst á baugi í heiminum. Þá nefndi hann Newscast og Americast frá BBC og the News Agents frá bresku útvarpssamsteypunni Global.