Björn Þór Sigbjörnsson og Bogi Ágústsson ræddu stjórnmál í Bretlandi og Danmörku. Boris Johnson komst óheppilega að orði um skosk sjálfstæðismál á fundi með þingmönnum Íhaldsflokksins í norðurhéruðum Englands fyrr í vikunni. Hann lýsti sjálfstjórn Skota sem stórslysi. Sjálfstæðissinnar í Skotlandi hafa hent þessi ummæli á lofti og fréttaskýrendur segja þau vatn á myllu þeirra, hálfu ári áður en kosið verður til skoska þingsins.
Í Danmörku hefur Mogens Jensen, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, þurft að segja af sér vegna þess að ríkisstjórnin hafði ekki lagaheimild til þess að fyrirskipa að öllum minkum í landinu yrði lógað til að koma í veg fyrir að stökkbreytt kórónuveira bærist úr minkunum í fólk. Stjórnarandstaðan segir að öll ríkisstjórnin beri ábyrgð, ekki bara Jensen. Minkamálinu í Danmörku er langt í frá lokið.