Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, þvertekur fyrir að orð sem hann lét falla á fjöldafundi stuðningsmanna sinna í Washington í síðustu viku hafi orðið til að kynda undir árásina á þinghúsið.
Heimastjórn Seyðisfjarðar vill að rannsakað verði hvers vegna hús voru ekki rýmd í bænum fyrr en aurskriður voru farnar að falla á byggðina.
Samkvæmt nýrri reglugerð þurfa börn sem fædd eru eftir 2005 að fara í sóttkví við komuna til landsins.
Fyrirhugaðar breytingar á kvöldfréttum stöðvar tvö eru skref aftur á bak í íslenskri fjölmiðlun að mati formanns Blaðamannafélags Íslands. Það sé Ríkisútvarpinu mikilvægt að geta speglað sig í öðrum miðlum. Hann kallar eftir því að fjármögnun fjölmiðla verði endurskoðuð.
Öllum samfélagsmiðlum hefur verið lokað í Úganda í aðdraganda forsetakosninga á fimmtudag. Lífverðir helsta mótframbjóðanda sitjandi forseta hafa verið handteknir.
Samkvæmt stjórnarskrá Íslands gæti forseti sem leystur hefur verið frá embætti áður en kjörtímabilinu lýkur boðið sig fram aftur seinna. Þetta segir aðjúnkt við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Ef Bandaríkjaforseti verður ákærður þýðir það hins vegar að hann getur ekki aftur boðið sig fram sem forseti. Arnar Páll Hauksson ræðir við Elínu Ósk Helgadóttur um hvaða lög og reglur gilda hér um að leysa ráðamenn frá störfum.
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði við fréttamenn í dag, þegar hann hélt áleiðis að mexíkósku landamærunum til að virða fyrir sér vegginn sem hann lét reisa, að hann vildi ekki sjá neitt ofbeldi í fyrirhuguðum mótmælum stuðningsmanna sinna næstu daga. Hann fordæmdi jafnframt þingmenn demókrata sem hyggjast leggja fram ákæru á hendur honum á bandaríska þinginu á morgun. Ákæran væri framhald á mestu nornaveiðum í stjórnmálasögu Bandaríkjanna. Kristján Sigurjónsson. sagði frá.