Björn Þór Sigbjörnsson og Bogi Ágústsson ræddu kappræður þeirra sem stefna að því að verða forsetaframbjóðendur Demókrataflokksins í Bandaríkjunum. Milljarðamæringurinn Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri New York, tók í fyrsta skipti þátt í kappræðum forsetaframbjóðenda Demókrataflokksins sem fram fóru í Las Vegas í Nevada í gærkvöld. Aðrir frambjóðendur beindu að honum spjótum og öldungadeildarþingmaðurinn Elizabeth Warren sagði að Demókratar myndu taka mikla áhættu ef þeir skiptu út einum hrokafullum milljarðamæringi fyrir annan.
Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, kynnti nýjar og hertar reglur fyrir innflytjendur, sem eiga að taka gildi um næstu áramót. Þegnar ESB-ríkja mega ekki flytja til Bretlands skilyrðislaust frá næstu áramótum. Punktakerfi verður tekið upp. Margir óttast að erfitt verði að fá fólk í umönnunarstörf eða við uppskeru og berja- og ávaxtatínslu. Breska stjórnin segir að þetta sé mikilvægur hluti þess að taka stjórnina í sínar hendur frá Brussel.
Klerkaráðið í Íran hefur bannað allt að níu þúsund manns að bjóða sig fram í þingkosningum og margir andstæðingar klerkastjórnarinnar ætla að hundsa kosningarnar og telja ekki að þær geti breytt neinu í stjórnarfari landsins.
Írska þingið kemur saman til fyrsta fundar í dag eftir þingkosningar. Ekki hefur tekist að mynda nýja stjórn og fréttaskýrendur telja að það geti reynst erfitt í mjög breyttu landslagi. Tveir flokkar, Fianna Fáil og Fine Gael, hafa skipst á að fara með stjórnarforystu á Írlandi á þeirri um það bil öld sem liðin er frá því að Írland varð sjálfstætt ríki. En flokkarnir töpuðu báðir fylgi í kosningunum 8. febrúar, ótvíræður sigurvegari var Sinn Féin, þjóðernissinnaður félagshyggjuflokkur.