Þjóðarleiðtogar og ráðherrar á Vesturlöndum eru sammála um að Rússar beri ábyrgð á sprengingunni í Póllandi, hvort sem eldflaugin var rússnesk eða úkraínsk. Úkraínumenn vilja taka þátt í vettvangsrannsókninni.
Forsætisráðherra segir mikilvægt að efla varnir landsins gegn hvers kyns netárásum. Málið sé í forgangi hjá þjóðaröryggisráði en töluvert verk sé enn óunnið.
Sálfræðingar flýja heilsugæsluna vegna skipulagsbreytinga sem gerðar voru fyrr á árinu í óþökk þeirra. Formaður Félags sálfræðinga í heilsugæslu segir þjónustuna verri fyrir vikið.
Íslensk stjórnvöld leggja á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna áherslu á, eins og hingað til, að hlýnun jarðar fari ekki yfir eina og hálfa gráðu. Matvælaráðherra segir að öllu skipti að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en lausnin sé margþætt og flókin.
Bragi Valdimar Skúlason hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu.
------
Farið er að síga á seinni hluta Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Egyptalandi. Henni lýkur á föstudag og tuttugu þúsund þátttakendur snúa þá heim á leið. Ætlun þeirra flestra er að vera nær því að tryggja markmið Parísarsamkomulagsins um að hlýnun jarðar verði ekki meiri en ein og hálf gráða frá því sem var við upphaf iðnbyltingar. Erfitt hefur reynst að ná samhljómi um hvernig. Í Glasgow í fyrra skrifuðu þátttakendur upp á yfirlýsingar um að dregið skyldi skarpt og verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Nú óttast sumir að reynt sé að ná málamiðlun í skjóli þess að markmiðið um eina og hálfa gráðu sé ekki raunsætt. Mary Robinson, fyrrverandi forseti Írlands, viðraði slíkar áhyggjur við fjölmiðla nýlega, en sagði ekki hægt að sættast á slíkt. Samtök fátækari ríkja á fundinum hafa líka lýst því yfir að ekki megi þynna út markmiðin og standa verði við að draga úr losun um helming fyrir 2030. Samtöl um það sem kallað hefur verið töp og tjón í þessu samhengi snúast að nokkru um að ríkari löndin verði að hjálpa þeim fátækari með fjárframlögum að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga sem koma hvað harðast niður á þeim fátæku. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra er í Egyptlandi fyrir hönd Íslands og ávarpaði samkomuna í gær. Anna Kristín Jónsdóttir ræddi við Svandísi.
Verðbólgan er komin yfir ellefu prósent í Bretlandi. Hún hefur ekki verið meiri í rúmlega fjóra áratugi. Efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar verða kynntar á morgun.Breska hagstofan ONS tilkynnti í morgun að verðbólgan í október hefði verið 11,1 prósent. Hún hefur ekki verið meiri frá árinu 1981, - í 41 ár. Ástæðan að þessu sinni er einkum aukinn