Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir byrjuðu umræðurnar við Boga Ágústsson í Heimsglugganum á að tala um Nazanin Zaghari-Ratcliffe. Hún er bresk-írönsk kona, sem verið hefur í haldi í Íran síðastliðin fimm ár, var dæmd fyrir undirróðursstarfsemi. Hún verður innan tíðar búin að afplána þann dóm og þá hefur klerkastjórnin boðað nýjar ákærur. Fréttaskýrendur segja að klerkastjórnin ætli að halda henni í fangelsi, þeir vilji fá endurgreitt fé sem þeir borguðu Bretum fyrir skriðdreka sem þeir fengu aldrei.
Þá var fjallað um grein sem birt er í nafni American Institute for Economic Research um skýringar á af hverju svo miklu fleiri Svíar hafa látist í kórónuveirufaraldrinum en Danir, Finnar og Norðmenn. Þar er því hafnað að dánartíðnin tengist því að Svíar hafi ekki lokað skólum og veitingahúsum á sama tíma og grannþjóðirnar gripu til umfangsmikilla samkomutakmarkana. Ein af ástæðum hárrar dauðatíðni í Svíþjóð segja höfundar greinarinnar að sé að færri hafi látist úr inflúensu á síðustu árum í Svíþjóð en í grannríkjunum og því hafi fleira fólk verið í áhættuhópi. Greinina má sjá hér:
https://www.aier.org/article/swedens-high-covid-death-rates-among-the-nordics-dry-tinder-and-other-important-factors/?fbclid=IwAR1bYV0JV4Lo5_Q6JNJca_xDLHg-Vxy_zEs75iGcUoGfNMuitAPI5Xc65B0
Þá var rætt um lagafrumvarp bresku stjórnarinnar sem ráðherrar viðurkenna að feli í sér brot á alþjóðalögum og útgöngusamningi Breta við Evrópusambandið.