Stjórnvöld mótmæla því að Ísland hafi verið sett á lista yfir ríki með ónógar varnir gegn peningaþvætti. Dómsmálaráðherra vonar að þetta hafi ekki mikil áhrif og vonast til þess að Ísland verði tekið af listanum í byrjun næsta árs.
Málamiðlanir og sátt um breiðar línur stjórnmálanna eru ekki merki um skoðanaleysi eða stefnuflökt, sagði Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna á landsfundi flokksins sem er nýhafinn. Hún sagði það áróður en ekki heiðarlegt mat að tala aldrei um neitt annað en þau mál sem ekki næðust fram í samsteypustjórn.
Talið er að afar mjótt verði á munum þegar breskir þingmenn greiða atkvæði á morgun um Brexit-samninginn sem um samdist við Evrópusambandið í vikunni. Forsætisráðherra Breta hefur í dag þrýst á þingmenn að staðfesta hann.
Formaður Félags framhaldsskólakennara segir kennara við Fjölbrautaskóla Vesturlands hafa að meðaltali 150 þúsund krónum lægri heildarmánaðarlaun en kennarar í öðrum skólum. Menntamálayfirvöld verði að grípa inn í.
Mótmæli í Barselóna náðu hámarki í dag sem staðið hafa í fimm daga eða frá því að hæstiréttur Spánar dæmdi 9 leiðtoga aðskilnaðarsinna í 9 til 13 ára fangelsi. Þeim er meðal annars gefið að sök að hafa hvatt til uppþota gegn ríkinu. Í dag voru boðuð allsherjarverkföll. Frá því í morgun hefur fólks streymt til miðborgarinnar úr fimm borgum. Arnar Páll Hauksson talar við Krístínu Hildi Kristjánsdóttur.
Kristján Sigurjónsson fjallar um símasafnanir. Ræðir við fólk á förnum vegi og fær líka hringingar frá samtökum sem eru að falast eftir framlögum.
Árangur knattspyrnufélagsins Östersund - í Svíþjóð og í Evrópu - er líklega mesta öskubuskusaga í sænskri íþróttasögu. Smábæjarlið frá Norður-Svíþjóð sem vann stórlið Arsenal á heimavelli þess. En kannski var það ekki bara samheldni og dugnaður sem skilaði þessum góða árangri. Fyrrverandi formaður knattspyrnufélagsins bíður nú dómsuppkvaðningar eftir að hann var ákærður fyrir umfangsmikinn fjárdrátt. Kári Gylfason í Gautaborg segir frá.