Spegillinn 10. janúar 2023.
Efling sleit í dag kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Formaður Eflingar segir baklandið reiðubúið til harðra aðgerða, en ekki er samhljómur innan stjórnar um ágæti verkfalla. Formaður SA segist efast um að vilji félagsmanna sé að fara í verkfall og að forysta Eflingar hafi viljað grípa til verkfalla frá því að viðræður hófust. Ríkissáttasemjari hefur þungar áhyggjur af stöðunni sem upp er komin í verkalýðshreyfingunni.
Innviðaráðuneytið er ósammála bæði heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar og Sambandi íslenskra sveitarfélaga um hvort grípa megi til sérstakra aðgerða til að takmarka umferð í því skyni að draga úr loftmengun. Ráðuneytið segir sveitarfélögin í fullum rétti til að grípa til aðgerða.
Stjórnvöld í Íran hafa hótað hörðum refsingum gegn þeim konum sem brjóta strangar reglur ríkisins um klæðaburð. Enn einn mótmælandinn hefur verið dæmdur til dauða í landinu.
Enn á ný fer flórgoðum landsins fækkandi. Líffræðingur á Náttúrustofu Norðausturlands telur stofninn ekki í hættu en mikilvægt sé að fylgjast grannt með framvindu mála.
------
Samningaviðræðum Eflingar og Samtaka atvinnulífsins var slitið í dag. Nú fer í hönd undirbúningur og kosning um verkfallsaðgerðir meðal félaga í stéttarfélaginu. Formaður Eflingar segir baklandið reiðubúið til harðra aðgerða, en ekki er samhljómur innan stjórnar um ágæti verkfalla. Formaður SA segist efast um að vilji félagsmanna sé að fara í verkfall og að forysta Eflingar hafi viljað grípa til verkfalla frá því að viðræður hófust. Ríkissáttasemjari hefur þungar áhyggjur af þeirri stöðu sem upp er komin í verkalýðshreyfingunni. Spegillinn ræddi við Sólveigu Önnu Jónsdóttur formann Eflingar, Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóra SA og Aðalstein Leifsson ríkissáttasemjara.
Forsetakosningar verða í Tyrklandi í júní. Recep Tayyip Erdogan hefur löngu lýst því yfir að hann sækist eftir endurkjöri. Óvíst er um mótframbjóðendur. Sá sem helst var búist við að myndi veita honum samkeppni er kominn í fangelsi og hefur verið bannað að taka þátt í stjórnmálum.
Umsjón: Bjarni Rúnarsson
Tæknimaður: Markús Hjaltason
Stjórn fréttaútsendingar: Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir.