Ekkert verður af rannsóknarverkefni bandaríska lyfjaframleiðandans Pfizer á virkni kórónuveirubóluefnis, sem rædd var á fundi sóttvarnalæknis, yfirlæknis smitsjúkdómadeildar Landspítala, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar og fulltrúa Pfizer í dag. Þetta sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar eftir fundinn.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að það hafi vissulega verið vonbrigði að ekkert yrði af rannsókn Pfizer hér á landi. Niðurstaðan hafi þó ekki komið á óvart.
Verulega hefur verið dregið úr leitinni að John Snorra Sigurjónssyni og tveimur göngufélögum hans sem saknað hefur verið frá því á föstudagsmorgun. Veðurspá er slæm næstu sjö daga.
Útgerðir landsins eiga að greiða 4,8 milljarða króna í veiðigjald vegna síðasta árs.
Kennarasamband Íslands fær vikulega símtöl frá kennurum sem telja sig verða fyrir ofbeldi af hálfu nemenda. Sambandið hvetur skólastjórnendur til þess að gera viðbragðsáætlun vegna ofbeldis.
Utanríkismálastjóri Evrópusambandsins hyggst leggja til að refsiaðgerðir gagnvart Rússlandi verði hertar.
Um fjórðungur launafólks á erfitt með að ná endum saman. Staða atvinnulausra er verri en launafólks og staða innflytjenda er talsvert verri en innfæddra. Yfir 40 af hundraði atvinnulausra mælast með slæma andlega heilsu miðað við um fimmtung launafólks. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri könnun Vörðu á stöðu launafólks. Varða er ný rannsóknastofnun vinnumarkaðarins sem ASÍ og BSRB komu á laggirnar. Fjallað var um niðurstöðurnar í Speglinum í gær en í dag var könnunin formlega kynnt. Arnar Páll Talaði við Drífu Snædal og Sonju Ýr Þorbergsdóttur.
Ólga er í stjórnmálum á Grænlandi, í síðustu viku fækkaði stjórnarflokkunum úr þremur í tvo er Demakratiit hætti stjórnarþátttöku. Kim Kielsen, formaður Landsstjórnarinnar, er því nú í forystu minnihlutastjórnar. Aðeins 11 af 31 þingmönnum styðja nú stjórnina. Bogi Ágústsson ræddi við Össur Skarphéðinsson.