Það er mikið áhyggjuefni að stjórnmálaflokkar sem tala gegn mannréttindum og sjálfstæði dómstóla telji sig vera í komna í sambærilegan flokk og Ísland á alþjóðavettvangi. Þetta segir formaður Dómarafélags Íslands um stuðning pólskra stjórnvalda við málstað Íslands í Landsréttarmálinu.
Forsætisráðherra Frakklands segir stjórnvöld þar ákveðin í að hrinda í framkvæmd breytingum á eftirlaunakerfinu. Verkalýðsfélög hafa boðað auknar aðgerðir eftir helgi.
ISAVIA hyggst nýta tekjur frá Keflavíkurflugvelli til uppbyggingar á Egilsstöðum. Samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra segir að við þetta losni um nokkur hundruð milljónir sem nýtist til viðhalds á öðrum flugvöllum.
Lögreglan á Indlandi skaut í morgun til bana fjóra menn sem nauðguðu og myrtu 27 ára konu í síðustu viku
Heilbrigðisráðherra hefur skipað nýjan skólameistara Fjölbrautarskóla Vesturlands. Menntamálaráðhetta lýsti sig vanhæfa til skipa í embættið.
Stefnt er að því að framleiða allt að einni og hálfri milljón lítra af 96% spíra á Sauðárkróki.
Lögreglan á Indlandi skaut í morgun til bana fjóra menn sem nauðguðu og myrtu 27 ára konu í síðustu viku. Illvirkið vakti mikla reiði og hneykslan en fjölskylda og vinir fórnarlambsins fagna nú dauða ódæðismannanna. Pálmi Jónasson sagði frá.
Niðurstöður PISA-könnunarinnar sem kynntar voru í vikunni sýna að lesskilningur grunnskólabarna á Íslandi hefur heldur daprast síðustu ár. Þetta veldur nokkrum vonbrigðum segir Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor á menntavísindasviði Háskóla Íslands. Útkoman komi kannski ekki beinlínis á óvart en þó hefðu menn vænst þess að umræða og verkefni síðustu ára um lestur, lesskilning og læsi hefðu skilað einhverjum árangri. Það sé flókið verk að bæta menntakerfið; ekki áhlaup eða átak- heldur langhlaup.Anna Kristín Jónsdóttir talaði við Önnu Kristínu.
Það þurfti samstarf þrjátíu landa til að koma böndum yfir mútugreiðslur bresks dótturfélags frönsku Alstom samsteypunnar í tveimur víðfeðmum mútumálum. Rannsókn málsins hófst í Bretlandi fyrir tíu árum, eftir ábendingar frá svissneskum yfirvöldum sem voru að rannsaka meintar mútugreiðslur Alstom. Auk sekta og dóma í Bretlandi og Sviss hefur Alstom greitt hæstu sekt nokkru sinni í Bandaríkjunum fyrir mútur. Málið er gott dæmi um hvað mútumál eru víða litin alvarlegum augum, sama þó múturnar séu greiddar í öðrum löndum. Sigrún Davíðsdóttir sagði frá.