Ekki er talin ástæða til að beita skimun eða taka upp landamæraeftirlit á Keflavíkurflugvelli vegna COVID-19 veirunnar. 46 sýni hafa verið rannsökuð hér á landi, öll reyndust neikvæð.
Enn er allt í hnút í kjaradeilu Eflingar og borgarinnar og verkfall á ellefta degi. Rusl flæðir upp úr tunnum víða um miðborg Reykjavíkur og í ruslageymslum við fjölbýlishús.
Dómsmálaráðherra vill leyfa áfengisauglýsingar í íslenskum fjölmiðlum. Bann við þeim virki ekki.
Veðurstofan hefur breytt viðvörun á Suðurlandi í appelsínugula vegna austan storms og stórhríðar. Víða er búst við skafrenningi og slæmum akstursskilyrðum. Til greina kemur að loka Reykjanesbraut.
Framkvæmdastjóri Rekstrarvara segir það árvekni heilbrigðisstarfsfólks að þakka að hér er til nóg af grímum og hlífðarbúnaði, nú sé einhverra mánaða bið eftir slíkum varningi að utan. Skrifstofustjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar segir innviðina þar sterkari nú en fyrir komu svínaflensunnar 2009. Arnhildur Hálfdánardóttir talar við Grétu Maríu Grétarsdóttur framkvæmdastjóra Krónunnar, Kristófer Oliversson, eiganda Centerhotels-keðjunnar, Einar Kristjánsson, framkvæmdastjóra Rekstrarvara og Berglindi Magnúsdóttur, skrifstofustjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Það munar milljörðum á tekjum borgarinnar og kostnaði vegna ferðamanna. Hallinn nemur 6-9 milljörðum samkvæmt nýrri greiningu. Arnar Páll Hauksson talar við Þórdís Lóu Þórhallsdóttur borgarfulltrúa Viðreisnar.