Spáð er snjókomu á hálendinu á norðan og austanverðu landinu á morgun. Færð gæti spillst og hætt er við að fé fenni í kaf.
Angela Merkel Þýskalandskanslari,var harðorð þegar hún krafði rússnesk stjórnvöld skýringa á banatilræði við stjórnarandstæðinginn Alexei Navalny, sem hafi verið byrlað taugaeitrið novichok.
Ótti og óöryggi eru eðlileg viðbrögð eftir að í ljós kom að 30 konur fengu ranga niðurstöðu úr leghálskrabbameinsskoðun. Þetta segir formaður Krafts, stuðningsfélags ungs fólks með krabbamein.
Flestir Íslendingar eru ánægðir með sóttvarnaraðgerðir á landamærunum og meirihluti landsmanna var sáttur við að aðgerðir voru hertar 19. ágúst.
Með hlutdeildarlánum til tekjulágra fyrstu kaupenda á bæði að greiða leið þeirra inn á fasteignamarkaðinn og ýta undir byggingu hagkvæmra íbúða, segir aðstoðarforstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Anna Kristín Jónsdóttir talar við ÖnnuGuðmundu Ingvarsdóttur.
Kísilverið PCC á Bakka við Húsavík hóf rekstur í apríl 2018. 1. júlí var 80 starfsmönnum versins sagt upp störfum og framleiðslunni hætt tímabundið eða smám saman dregið úr henni. Verð á kísilmáli hafði fallið nokkuð í einhvern tíma en COVID -19 gerði útslagið. Um 150 störfuðu hjá PCC þau rúmu tvö ár sem verksmiðjan starfaði. Uppsagnarfrestur starfsmanna er mislangur. Um síðustu mánaðamót voru enn 103 á launaskrá og búist er við að 40 til 50 verði á launum þó að framleiðslunni hafi verið hætt. Arnar Páll Hauksson talaði við Aðalstein Baldurson um stöðuna hjá fyrirtækinu.
Á Covid-19 tímum glíma ýmsar stórborgir við kleinuhringsfyrirbærið: dauðar miðborgir en ný umsvif í öðrum hverfum. Í Bretlandi hefur ríkisstjórnin hvatt fólk til að fara aftur í vinnuna, líkt og það væri þegnskylda að bjarga miðborgum. Aðrir telja þetta enn eitt dæmi um að veirufaraldurinn ýtir undir þróun, sem var þegar hafin. Sigrún Davíðsdóttir sagði frá.