Myndir frá gervitunglum sýna litlar breytingar á milli Keilis og Fagradalsfjalls á Reykjanesskaga. Borgarstjóri segir gasmengun frá hugsanlegu eldgosi vera ógn sem huga þurfi að.
Þó að óróapúls mælist ekki lengur á skjálftasvæðinu á Reykjanesskaga er skjálftahrinan enn kröftug.
Danmörk, Austurríki og Ísrael ætla að stofna sjóð til að vinna saman að rannsóknum á bóluefnum gegn COVID-19 og fjárfesta í verksmiðjum til að auka framleiðsluna.
Hætta er á að aukin umræða um alþjóðlega skipulagða glæpahópa ýti undir fordóma gagnvart innflytjendum. Þetta segir afbrotafræðingur sem fagnar því að umræðan verði til þess að fjársvelt lögregla fái viðbótarfjármagn.
Samband sveitarfélaga hefur óskað eftir fundi með velferðarnefnd Alþingis til að ræða rekstur hjúkrunarheimila. Framkvæmdastjóri sambandsins segir ótækt að sveitarfélög borgi með þessum rekstri.
Þetta er frekar lífleg þróun í jarðhræringum á Reykjanesskaga en ekki mjög hröð, segir Sigurjón Jónsson jarðeðlisfræðingur við King Abdullah háskólann í Saudi Arabiu. Það verði breytingar á nokkurra klukkustunda fresti sem þarf að rýna í og reyna að skilja. Sigurjón er einn þeirra vísindamanna sem skoðar gervitunglamyndir af landinu. Ragnhildur Thorlacius talaði við Sigurjón.
Margrét Valdimarsdóttir, afbrotafræðingur og lektor við háskólann á Akureyri segir að íslensk lögregla hafi verið fjársvelt of lengi og fagnar því ef umræða um skipulagða alþjóðlega glæpastarfsemi hér á landi verði til þess að hún fái aukið fjármagn. Hætta sé hins vegar á að umræðan veki upp fordóma gagnvart innflytjendum. Bergljót Baldursdóttir ræddi við Margréti Valdimarsdóttur.