Um liðna helgi var framinn sólarhrings langur gjörningur undir Skeiðarárbrú þar sem 17 eldar voru kveiktir og tugir kílómetra voru gengnir. Listamaðurinn á bak við verkið, Jakob Veigar Sigurðsson, hefur verið búsettur í Vínarborg síðastliðinn áratug en á ættir að rekja til Öræfa og mætir í hljóðstofu.
Á morgun opnar í Gerðarsafni umfangsmikil samsýning sem ber titilinn Corpus. Þar rannsakar hópur listamanna samband okkar við líkamann út frá ólíkum sjónarhornum, þá sérstaklega í samhengi við kynþætti, kyngervi og umhverfi. Daría Sól Andrews er sýningarstjóri Corpus og segir okkur frá sýningunni. Og við tökum upp þráðinn frá því í vor og heyrum í dag pistil úr pistlaröð arkitektsins Óskars Arnórssonar. Pistill dagsins hefur yfirskriftina Arkitektúr og manneskjan.