Níu af hverjum tíu landsmönnum segjast ætla að kjósa Guðna Th. Jóhannesson í forsetakosningunum í lok mánaðarins samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups.
Á fjórða þúsund eru samankomin á samstöðufundi á Austurvelli vegna ástandsins í Bandaríkjunum. Samstöðufundir voru einnig haldnir á Akureyri og Ísafirði í dag.
Smitsjúkdómalæknir vill að íhugað verði að sleppa því að skima ferðamenn við komuna til landsins. Skimunin geti verið falskt öryggi.
Vísbendingar eru um að þeim sem lenda í greiðsluvandræðum muni fjölga mjög þegar líður á sumarið.
Árás lögreglunnar á fjölmiðlafólk undanfarna daga er mikið áfall, ekki síst vegna þess að Bandaríkin eru opinberlega stærsta lýðræðisríki heims. Þetta segir framkvæmdastjóri Alþjóðabandalags blaðamanna.
Guðmundur Hálfdánarson, sagnfræðiprófessor við Háskóla Íslands segir að á vissan hátt sé tekist á um stöðu forsetans í kosningabaráttunni vegna komandi forsetakosninga. Guðmundur segir þetta eftir viðtal Spegilsins við Guðmund Franklín Jónsson sem býður sig fram gegn Guðna Th. Jóhannessyni forseta. Hann segir að Guðni hafi fært embættið aftur á þann stað sem það var áður en Ólafur Ragnar Grímsson beitti málskotsréttinum í fyrsta sinn. Arnar Páll Hauksson talar við Guðmund Hálfdánarson.
Yfirlæknir á ónæmisfræðideild Landspítalans útilokar ekki að gríðarleg notkun sótthreinsispritts geti valdið varanlegum skaða á ónæmiskerfinu. Handþvottur sé besta vörnin gegn smitsjúkdómum en margir hafi hallað sér full mikið að sprittinu í heimsfaraldrinum. Veirur kunna að verða ónæmar fyrir spritti, en þegar er farið að bera á ónæmi gagnvart öðrum sótthreinsiefnum. Arnhildur Hálfdánardóttir talaði við Björn Rúnar Lúðvíksson.
Breska stjórnin var sein að setja á samkomubann vegna COVID-19 veirunnar. Eftir misvísandi upplýsingar hika breskir foreldrar við að senda krakkana í skólann. Samt flykkist fólk á strendur og útisvæði í góða veðrinu, og hagstofustjóri Breta telur ríkisstjórnina beita tölfræðiblekkingum. Sigrún Davíðsdóttir segir frá.