Appelsínugul viðvörun er í gildi á Suðurnesjum, Vesturlandi, Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra. Gul viðvörun er í öðrum landshlutum nema á Austurlandi. Björgunarsveitir eru í viðbragðsstöðu á Suðurnesjum.
Það kemur í ljós í seinni hluta næstu viku hvort tekist hefur að ná tökum á núverandi bylgju faraldursins eða hvort ný bylgja sé komin af stað. Þetta segir Thor Aspelund líftölfræðingur.
Sáttafundur í kjaradeilu flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni og ríkisins hefur staðið yfir í allan dag.
Heilbrigðisyfirvöld í Svíþjóð gera ráð fyrir að COVID-19 farsóttin nái hámarki um miðjan desember. Á sjöunda þúsund landsmenn eru dánir af hennar völdum.
Takmarkanir á lífi og frelsi fólks verða að hafa skýra heimild í lögum þó að í sóttvarnaskyni séu, segir lögmaður sem telur að sóttvarnaaðgerðir í kórónuveirufaraldrinum byggist ekki á nægilega traustum grunni. Anna Kristín Jónsdóttir talar við Reimar Pétursson.
Spegillinn fjallaði um Diego Maradona. Kristján Sigurjónsson talaði við Víði Sigurðsson og Örnu Steinsen.
Mesta efnahagsáfall í Bretlandi síðan frostaveturinn mikla 1709, ríkið ekki þurft að mæta öðrum eins útgjöldum og standa í öðrum eins lántökum síðan í seinni heimsstyrjöldinni, allt vegna veirufaraldursins sem leggst þungt á Breta. Þetta var boðskapur Rishi Sunak fjármálaráðherra Breta í breska þinginu í gær. En það er annað verra fyrir Breta en veiran: fjármálaráðherra nefndi ekki Brexit en bankastjóri Englandsbanka varaði við því í vikunni að áhrif Brexit, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, gætu til lengdar orðið verri en veiruáhrifin. Sigrún Davíðsdóttir sagði frá.