Það er brot á samfélagssáttmála að fyrirtæki greiði út arð eða kaupi eigin hlutabréf á meðan þau nýta sér björgunarhring stjórnvalda. Þetta segir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Það verði ekki bæði sleppt og haldið.
Fyrirtækin Hagar, Festi og Skeljungur hafa ákveðið að hætta að nýta hlutabótaleiðina. Hagar og Skeljungur ætla að endurgreiða það sem þau hafa fengið frá ríkinu.
Útlit er fyrir að takmörkunum vegna samkomubanns verði aflétt hraðar þann 25. maí, en gert var ráð fyrir. Enginn greindist með smit síðasta sólarhring. Sóttvarnalæknir segir að óhætt sé að ganga lengra í að aflétta hömlum vegna þess hversu hratt faraldurinn hefur gengið niður.
Yfir 31 þúsund dauðsföll hafa verið tilkynnt í Bretlandi vegna COVID-19 sjúkdómsins. Þeirra á meðal er sex vikna ungbarn.
Á sunnudag eru 80 ár frá því að Bretar hernámu Ísland. Sagnfræðingur segir að fáir atburðir hafi haft jafn miklar og skjótar breytingar í för með sér í sögu landsins. Bogi Ágústsson segir frá og talar við Guðmund Hálfdánarson.
Í Bandaríkjunum hafa kjötpökkunarstöðvar orðið sérstaklega illa úti í heimsfaraldrinum. Af þeim 500 þúsund verkamönnum sem starfa í pakkhúsum stórfyrirtækja er talið að um 5000 hafi veikst, eða einn af hverjum hundrað. Að minnsta kosti tuttugu hafa látist. Kórónuveiran hefur varpað ljósi á bág starfsskilyrði verkamanna. Hún hefur líka afhjúpað hvernig matvælaframleiðsla í Bandaríkjunum hvílir að stórum hluta á herðum ólöglegra innflytjenda frá Rómönsku-Ameríku.
Arnhildur Hálfdánardóttir segir frá.