Skera á vetrarþjónustu Vegagerðarinnar niður um tíu prósent. Halli í rekstri hennar er nú um milljarður króna.
Báturinn Sjávarperlan náðist úr höfninni á Flateyri í dag og var fluttur á land. Slæmt veður síðustu daga hefur torveldað hreinsun í höfninni.
Glundroði í Líbíu getur farið að hafa áhrif í öðrum ríkjum við Miðjarðarhafið, segir Tyrklandsforseti. Hann ræddi í dag við kanslara Þýskalands um ástandið í Líbíu og flóttamannavandann.
Hagnaður Arion banka verður átta milljörðum minni en gert var ráð fyrir, en verður þó um einn milljarður króna. Bankinn gaf út afkomuviðvörun í gær vegna síðasta ársfjórðungs ársins 2019.
Hljómsveitin HAM heldur stórtónleika í Hafnarhúsinu í kvöld. Liðsmenn sveitarinnar lofa miklu stuði.
Lengri umfjallanir:
Lögreglan ætlar á næstunni að óska eftir DNA-sýnum úr ættingjum þeirra sem eru á svokallaðri horfinnamannaskrá. Skrá lögreglu yfir óupplýst mannshvörf. Sýnin eiga að auðvelda lögreglu að bera kennsl á bein sem kunna að finnast í framtíðinni. Kennsl voru nýlega borin á hluta úr höfuðkúpu sem fannst við ósa Ölfusár árið 1994. Hún tilheyrði Jóni Ólafssyni sem hvarf í desember árið 1987. Arnhildur Hálfdánardóttir ræðir við Birgittu Jónsdóttur, dóttur Jóns, og Odd Árnason, yfirlögregluþjón hjá lögreglunni á Suðurlandi.
Breska heilbrigðiskerfið er álitið hið mesta þjóðarhnoss en peningavandi og skipulagsvandi er krónískur í kerfinu. Sigrún Davíðsdóttir.