Skipstjóri Samherjatogarans Heinaste, sem handtekinn var í Namibíu í fyrrakvöld og færður í gæsluvarðhald, segist furða sig á handtökunni.
Fyrrverandi þjónustustjóri hjá Isavia hefur verið ákærður fyrir að þiggja þrjár og hálfa milljón í mútur og umboðssvik. Framkvæmdastjóri tæknifyrirtækis er einnig ákærður í málinu.
Tíu manns var sagt upp störfum hjá Hafrannsóknastofnun í dag. Að auki sögðu fjórir upp störfum. Forstjóri Hafrannsóknastofnunar segir að skipulagsbreytingar standi yfir, sviðum og deildum verði fækkað.
Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels hefur verið ákærður fyrir fjármálaspillingu. Ríkissaksóknari ætlar að fara fram á það við þing landsins að hann verði sviptur þinghelgi.
Það gæti tekið allt að 20 ár að leggja flugvöll í Hvassahrauni fyrir bæði millilanda- og innanlandsflug eftir að ákvörðun væri tekin. Kostnaður við nýjan millilanda- og innanlandsflugvöll gæti orðið að lágmarki 300 milljarðar króna. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var fyrir samgönguráðuneytið og kynnt í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í morgun. Arnar Páll Hauksson segir frá.
Það er dýrt að reka heimili fyrir einn, pakkaferðir eru hannaðar fyrir dæmigerðar kjarnafjölskyldur og stórar pakkningar í verslunum ýta undir matarsóun. Spegillinn fjallar þessa dagana um stöðu einbúa á Íslandi - Í þeim löndum sem við berum okkur saman við fjölgar stöðugt í þessum hópi Arnhildur Hálfdánardóttir segir frá. Hún talar við Jón Arnar Magnússon, Sighvat Ívarsson, Bjargeyju Önnu Guðbrandsdóttur og Elínu Björgu Ragnarsdóttur.