Úlfúð og illindi ríkja nú víða í alþjóðasamskiptum. Rússar hafa kallað sendiherra sinn heim frá Washington eftir að Bandaríkjaforseti svarað játandi spurningu um hvort Vladimír Pútín Rússlandsforseti væri morðingi. Þá sökuðu Bandaríkjamenn Rússa um afskipti af kosningunum vestra í fyrra. Í Evrópu ganga hnútur á milli Breta og Evrópusambandsins. ESB hefur kært bresku stjórnina fyrir brot á alþjóðalögum því Bretar frestuðu einhliða tolleftirliti á milli Norður-Írlands og Bretlands. Kveðið er á um slíkt eftirlit í Brexit-samningnum.
Í lokin ræddu Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir við Boga Ágústsson um flugslys á Fagradalsfjalli árið 1943. Þá fórust 14 Bandaríkjamenn, en einn komst lífs af. Meðal hinna látnu var Frank M. Andrews, yfirhershöfðingi bandaríska heraflans í Evrópu. Hann var að öllum líkindum á leið til Washington til að verða útnefndur yfirhershöfðingi innrásar bandamanna í Evrópu. Að Andrew látnum var Dwight Eisenhower fenginn til þess.