Við lítum inn í tvö gallerí í þætti dagsins, fyrst í Gallerý Port, þar sem sýningin Augnlokin þyngjast stendur yfir en á henni má sjá ný verk úr smiðju Baldvins Einarssonar, og svo í Gallerí Hakk við Óðinsgötu, nýtt gallerí sem sérhæfir sig í hönnun. Við ræðum við forsprakka þess, Brynhildi Pálsdóttur og Gunnar Pétursson, um galleríið og sýninguna sem opnar á morgun, þar sem hönnuðurinn Johanna Seelemann sýnir muni sem hún býr til úr afgangs gleri. Tumi Árnason fer yfir það sem helst vekur athygli hans í íslensku tónlistarsenunni í sínum hálfsmánaðarlega pistli. En við byrjum á að kynna okkur málþing sem fer fram í samkomuhúsinu í Sandgerði á sunnudag, um metsöluhöfundinn Ingibjörgu Sigurðardóttur. Ingibjörg fæddist árið 1925 og var einn vinsælasti ástarsöguhöfundur á Íslandi á sjötta og sjöunda áratugnum. Við ræðum um Ingibjörgu við bókmenntafræðinginn Vilborgu Rós Eckard, og grípum örstutt niður í viðtal frá árinu 1987, við Ingibjörgu sjálfa.