Karlmaður á sjötugsaldri er grunaður um að hafa orðið valdur að brunanum á Bræðraborgarstíg í gær, þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglu nú rétt fyrir fréttir.
Sóttvarnalæknir segir til skoðunar að senda Íslendinga sem koma frá áhættusvæðum í sóttkví, þrátt fyrir að sýni úr þeim reynist neikvætt við landamæraskimun.
Formaður stéttarfélagsins Framsýnar í Þingeyjarsýslu segir brýnt að tryggja hópnum sem í gær missti vinnuna í kísilveri PCC á Bakka atvinnu sem fyrst. Staðan sé grafalvarleg.
Björk Guðmundsdóttir ætlar að halda tónleika á Íslandi í sumar. Með því vill hún bregðast við breyttum aðstæðum tónlistarfólks.
Það ræðst á næstu klukkustundum hvort félagsmenn írsku stjórnmálaflokkanna þriggja sem hafa komið sér saman um að mynda ríkisstjórn fallast á stjórnarmyndunina.
Lengri umfjallanir:
Samtaka ferðaþjónustunnar telja áhyggjuefni ef lokað verður á bandaríska ferðamenn lengi eftir 1. júlí.
Félagsfræðingur segir að meirihlutahópurinn í samfélaginu þurfi að taka afstöðu gegn rasisma. Ungar konur af erlendum og blönduðum uppruna hafa undanfarið látið í sér heyra á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum.
Ýmsir telja að kórónuveiruváin sé brýn áminning um hættuna sem heiminum stafi af loftslagsbreytingum.
Spegillinn er nú farinn í sumarfrí en verður aftur á dagskrá um miðjan júlí.