Þetta er sárt og erfitt fyrir vinnustað. En að sjálfsögðu miklu erfiðara og sárara fyrir fjölskylduna og börnin, segir forstöðukona þjónustuíbúða í Odder í Danmörku þar sem Freyja Egilsdóttir Mogensen, íslensk kona starfaði. Hún var myrt af fyrrverandi sambýlismanni sínum.
Brú er betri kostur en jarðgöng vegna lagningar Sundabrautar að mati starfshóps sem samgönguráðherra skipaði til að meta bestu leiðina yfir Kleppsvíkina. Kostnaður er áætlaður 44 milljarðar króna. Ráðherra segir að verkinu gæti lokið eftir 8 til 10 ár.
Lögfræðingur hjá Húseigendafélaginu segir dóm um nágranna sem taldist galli á fasteign vera stórmerkilegan og stefnumarkandi.
Þjóðvegi eitt yfir Jökulsá á Fjöllum var lokað núna klukkan sex. Hann verður opnaður aftur í fyrramálið.
Brú vegna lagningar Sundabrautar er betri kostur en jarðgöng. Þetta er niðurstaða starfshóps samgönguráðherra sem falið var að meta þessa tvo kosti. Samgönguráðherra segir að Sundabraut gæti verið tilbúið eftir 8 til 10 ár. Arnar Páll Hauksson talar við Guðmund Inga Jóhannsson.
Fólk býr í atvinnuhúsnæði um allt land, allt að því 7000 manns. Svona hefur þetta verið árum saman og svona verður það líklega áfram á meðan skortur er á húsnæði. Slökkviliðið þarf að vita hvar þetta fólk býr svo hægt sé að bjarga því ef það kviknar í en eins og staðan er í dag má ekki skrá lögheimili eða aðsetur í atvinnuhúsnæði. Fólk skráir því lögheimili sitt annars staðar eða er skráð óstaðsett í hús hjá sveitarfélaginu. Í nýrri skýrslu vinnuhóps húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er lagt til að fólki verði leyft að skrá aðsetur í atvinnuhúsnæði. Fasteignasali sem selur og leigir svona íbúðir telur að það væri skref í rétta átt. Arnhildur Hálfdánardóttir ræðir við Helenu Sigurðardóttur.
Í Bretlandi gengur vel að bólusetja, takmarkið að bólusetja 15 milljónir manna fyrir miðjan febrúar innan seilingar. Sá árangur og hitasóttarkennd umræða um ný veiruafbrigði hefur í bili dregið athyglina frá skimun, sem hefur ekki gengið jafn vel. En í dag minnast Bretar kapteinsins Tom Moore, öldungsins sem snerti hjörtun heima og heiman eins og heyra mátti í miðnæturfréttum breska ríkisútvarpsins í gærkvöldi. Sigrún Davíðsdóttir segir frá.