Bogi Ágústsson og Jóhann Hlíðar Harðarson byrjuðu á því að nefna að líklega verður tilkynnt í dag að tveimur af þremur gerðum veiru sem veldur lömunarveiki eða mænusótt hafi verið útrýmt. Þriðja gerð veirunnar finnst aðeins í Afganistan og Pakistan þar sem bólusetningar ganga illa vegna stríðsátaka.
Benny Gantz, leiðtoga Blá-hvíta bandalagsins, hefur verið falin stjórnarmyndun í Ísrael eftir að Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra, tókst ekki að afla sér fylgis til stjórnarmyndunar. Flokkur hans, Likud bandalagið, og Blá-hvíta bandalagið fengu báðir um þriðjung atkvæða í kosningum í september.
Órói og mannskæðar óeirðir hafa verið í nokkrum ríkjum Suður-Ameríku að undanförnu, Síle, Ekvador og Bólivíu.
Bandaríkjamenn hafa enn mikinn áhuga á Grænlandi þó að kauptilboði Donalds Trumps forseta í landið hafi verið hafnað. Þungavigtarsendinefnd frá Washington hefur verið í Nuuk og rætt við heimamenn. Formaður nefndarinnar, Thomas Ulrich Brechbuhl, hefur sagt að Bandaríkjamenn hafi ýmislegt að bjóða Grænlendingum.