Bandaríska sjónlistakonan Joan Jonas hefur verið á Íslandi undanfarna viku að vinna að nýju verki ásamt Ragnari Kjartanssyni. Þau koma fram í dag á samræðuviðburði Listasafns Reykjavíkur í tilefni af 70 ára nóbelsafmæli Halldórs Kiljan Laxness og ræða þar um verk sín sem byggja á skáldsögum eftir skáldið; Reanimation úr smiðju Joan Jonas og Heimsljós; líf og dauði listamanns eftir Ragnar. Við tökum þau tali í þætti dagsins.
Myndlistarrýnirinn Ragna Sigurðardóttir flytur pistil sem hún kallar Ferðalag um liti og minningar. Þar fjallar hún um sýningu Rúríar, Tímamát í SIND galleríi, sýningu Kristjáns Steingríms, Fyrir handan liti og form í Berg contemporary, sem og samsýningu norræna listamanna Time After Time í Norræna húsinu.
Arvo Pärt er eitt dáðasta tónskáld samtímans. Vinsældir hinna guðdómlegu og tæru tónsmíða hans þykja endurspegla þrá sem margir finna fyrir, þörf fyrir skjól frá hávaða og áreiti og rými fyrir íhugun, einfaldleika og hvíld. Við hugum að tónlist Arvo Part í þættinum.