Spegillinn 24.11.2022
Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og samtaka atvinnulífsins sitja enn á fundi Ríkissáttasemjara. Kjarasamningur með stuttan gildistíma er sagður til skoðunar.
Sterkur grunur er um að skjöl barna sem voru ættleidd til Íslands frá Sri Lanka hafi verið fölsuð. Ólöglegar ættleiðingar eru sagðar hafa verið stundaðar í stórum stíl í landinu.
Ályktun Íslands og Þýskalands var samþykkt á fundi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna síðdegis. Ráðið fordæmir framgöngu íranskra stjórnvalda gegn mótmælendum.
Skriðuhætta er enn á Seyðisfirði eftir úrkomu þar í dag. Ekkert lát er á vætutíð þar eystra næstu daga.
Fasteignum á sölu hefur fjölgað að undanförnu en eftirspurn hefur minnkað.
Portúgalinn Christiano Ronaldo varð í dag fyrstur til að skora á fimm heimsmeistaramótum, þegar Portúgalar lögðu Ganverja á HM í Katar.
-----
Stýrivaxtahækkun Seðlabankans hleypti illu blóði í yfirstandandi kjaraviðræður. Forystumenn verkalýðsfélaganna lýstu því yfir í gær að hækkunin hefði breytt öllum forsendum viðræðnanna og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins gagnrýndi einnig tímasetningu hækkunarinnar. Í morgun boðaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fylkingarnar á sinn fund í Stjórnarráðið við Lækjargötu í Reykjavík. Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins ræddi við fréttamenn fyrir fundinn. Hann segir að Seðlabankinn hefði átt að bíða með stýrivaxtahækkun gærdagsins. Bjarni Rúnarsson fór yfir málið.
Þoka grúfði yfir Kænugarði, höfuðborg Úkraínu í dag. Það rigndi og hitinn var rétt yfir frostmarki. Útlit er fyrir að hann hangi nálægt núllinu í nótt. Borgarbúum er kalt, enda eru sjö tíundu hlutar borgarinnar án rafmagns eftir árásir rússneska innrásarliðsins á lífæðar samfélagsins undanfarnar vikur, þar á meðal raforkuver og vatnsveitur.Hans Kluge, svæðisstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Evrópu, kom í heimsókn til Kænugarðs fyrr í vikunni. Þá var hitinn við frostmark.
Flaggskip breska flotans kom óvænt til Óslóar í Noregi áður en lengra er haldið norður á bóginn. Þetta er talið dæmi um að einnig Bretar beini nú sjónum sínum í norður til að mæta vaxandi ógn frá Rússum. Gísli Kristjánsson, fréttaritari í Osló, leit á skipið og spáir hér í hvað Bretum gangi til með heimsókn sinni.
Stytting stúdentsbrauta í framhaldsskólum landsins úr fjórum árum í þrjú hefur leitt til þess að sumar námsgreinar hafa ýmist verið gerðar að valgreinum, eða dottið alveg út. Margt bendir til þess að nemendur komi verr undirbúnir í háskólanám í sumum greinum eftir breytingarn