Spegillinn, 16. desember 2022
Umsjón: Anna Kristín Jónsdóttir. Tæknimaður: Mark Eldred. Stjórn fréttaútsendingar: Margrét Júlía Ingimarsdóttir.
Leigubílstjórar ætla að skerða þjónustu um helgina og ekki að keyra í tvo sólarhringa frá mánudagsmorgni til að mótmæla samþykkt leigubílafrumvarpsins. Daníel Einarsson, formaður Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra segir að stjórnvöld hafi sett stéttina á útrýmingarlista. Oddur Þórðarson talaði við hann.
Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna 78 segir það hrollvekjandi að mennirnir sem ákærðir eru í hryðjuverkamálinu hafi rætt að fremja fjöldamorð í gleðigöngu hinsegin daga. Hafdís Helga Helgadóttir talaði við hann.
Vilji Samtaka atvinnulífsins stendur til að semja hratt og örugglega við Eflingu á sömu nótum og við Starfsgreinasambandið að sögn Halldórs Benjamíns Þorbergssonar framkvæmdastjóra SA. Sólveig Anna Jónsdóttir. formaður Eflingar segir það aldrei verða samþykkt.
Kennitöluflakkarar geta lent í allt að tíu ára banni frá atvinnurekstri ef þeir brjóta ítrekað af sér, samkvæmt nýjum lögum frá Alþingi. Brynjólfur Þór Guðmundsson tók saman.
Umsátursástand myndaðist við dýragarðinn í Furuvik í Svíþjóð þar sem fimm simpansar sluppu af svæði sínu á miðvikudag. Þrír simpansanna voru skotnir til bana og einn liggur hreyfingarlaus eftir byssuskot. Róbert Jóhannsson sagði frá.
------------
Meðal þeirra breytinga á fjárlögum sem lagðar voru til af fjármálaráðherra milli umræðna, voru stóraukin framlög til lögreglu; um hálfur milljarður í aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi og 900 milljónir sem í tilkynningu fjármálaráðuneytisins segir að séu tilkomnar með hliðsjón af markmiðum um viðbragðstíma, málsmeðferðarhraða og öryggisstig. Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri fagnar því að bæta eigi í fjárveitingar til lögreglunnar, hún hafi lengi verið undirfjármögnuð og undirmönnuð. Anna Kristín Jónsdóttir talaði við hana.
Um þessar mundir eru fimm ár frá því að #metoo-byltingin, eða -bylgjan, barst hingað til lands. Þá risu konur upp og sögðu frá kynferðislegri áreitni og -ofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir í lífinu. Kristján Sigurjónsson ræðir við Gyðu Margréti Pétursdóttur, prófessor í kynjafræði við HÍ um áhrif bylgjunnar og hvernig hún birtist hér.