Vísbendingar eru um að COVID-19 faraldurinn sé að færast í aukana hér á landi, segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Alls eru 330 staðfest tilfelli hér á landi, sem er fjölgun um 80 frá því í gær. Á veirufræðideild Landspítalans hafa verið staðfest 73 smit, eða um 15 prósent af innsendum sýnum. Sú prósentutala hefur hækkað. Hún var 10 prósent í gær.
Þjóðir heims verða að taka höndum saman til að koma í veg fyrir COVID-19 sjúkdómurinn berist til fátækustu ríkja heims. Ella er hætta á að hann verði milljónum manna að bana, segir framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Fleiri hafa látist af völdum veirunnar á Ítalíu en á meginlandi Kína.
Ekki sér fyrir endann á verkfalli Eflingar í fimm sveitarfélögum. Sex skólar eru enn lokaðir. Klögumálin ganga á víxl, og deilendur virðast ekki reiðubúnir að slaka á kröfum sínum.
Þrítugur karlmaður, sem handtekinn var í nótt, grunaður um aðild að eldsvoðanum á skemmtistaðnum Pablo Discobar í miðborg Reykjavík, er sá hinn sami og olli stórhættu í síðustu viku, þegar hann stal steypubíl í miðborginni og ók honum meðal annars á móti umferð.
Prófessor í sagnfræði segir ekki miklar líkur að forseti Íslands fái mótframboð. Þær séu líklega enn minni vegna ástandsins sem nú ríkir. Kjörtímabili forsetans lýkur í lok júní. Arnar Páll Hauksson talar við Guðmund Hálfdánarson.
Lagaprófessor segir að ekki sé hægt að útiloka, ef til forsetakosninga kemur, að þeim verði frestað vegna COVID-ástandsins. Þó að ákvæði séu um tímasetningu forsetakosninga í stjórnarskrá er mögulegt að fresta þeim á grundvelli óskráðra neyðarréttarsjónarmiða. Arnar Páll Hauksson talar við Björgu Thorarensen.
COVID-19 tilfellum fjölgar nú hratt í Bretlandi, staðfest smit nú rúmlega 2600, 103 látnir. Breska stjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir að hafa verið alltof værukær. Nú lofar stjórnin miklum efnahagsaðgerðum en gagnrýnin í þinginu í dag kom ekki frá stjórnarandstöðunni heldur þingmönnum stjórnarflokksins, Íhaldsflokksins. Sigrún Davíðsdóttir segir frá.