Rasmus Gjedsø Bertelsen var gestur Heimsgluggans. Rasmus er Dani sem talar íslensku og er prófessor í norðurslóðafræðum í Tromsø og Nansen-prófessor við Háskólann á Akureyri. Þeir Bogi Ágústsson ræddu stöðu Norðurskautsráðsins og samskipti þjóða á norðurslóðum. Rasmus segir að Norðurskautsráðið sé nánast í dauðadái.
Björn Þór Sigbjörnsson, Guðrún Hálfdánardóttir og Bogi ræddu svo þættina Skuggastríð, sem norrænu almannaþjónustustöðvarnar í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hafa unnið í sameiningu. Þættirnir fjalla um njósnir Rússa. Í síðustu viku var sagt frá njósnum í Eystrasalti og Norðursjó með svokölluðum rannsóknarskipum og fiskiskipum. Í þáttunum hefur verið afhjúpað að ekki færri en þrjátíu og átta Rússar sem hafa starfað í sendiráðum Rússlands hafa haft njósnir að aðalstarfi. Þeir eru nafngreindir í þáttunum. Eftir að sýning þáttanna hófst hafa norsk stjórnvöld vísað fimmtán rússneskum sendiráðsstarfsmönnum úr landi og Svíar fimm. Danir ráku 15 úr landi í fyrra. Rússar hafa svarað með því að reka tíu starfsmenn sendiráðs Noregs úr landi.
Georg Lárusson, forstjóri íslensku Landhelgisgæslunnar, segir ekki hafa komið á óvart að rússnesk skip stundi njósnir og kortleggi sæstrengi og vindmyllur,
Nokkur athygli hefur beinst að Færeyjum vegna rússneskra skipa sem koma mjög oft til hafnar þar. Færeyingar hafa verið með fiskveiðisamning við Rússland síðan 1977 og er hann endurnýjaður árlega. Mikill þrýstingur er á Færeyinga að rifta þessum samningi. Færeyingar hafa á hagnast verulega á útflutningi fisks til Rússlands á undanförnum árum eftir að Rússar svöruðu refsiaðgerðum vestrænna þjóða með því að banna innflutning frá ríkjunum. Færeyingar hafa hins vegar mátt selja fisk í Rússlandi. Færeyingar eru að endurskoða fiskveiðisamninginn og lögmaður hefur boðað ákvörðun innan tíðar. Málið hefur valdið spennu í samskiptum Færeyinga og Dana og vakið spurningar um hver eigi að taka ákvarðanir þegar málefni skarast innan danska ríkissambandsins. Ákvarðanir í sjávarútvegs- og efnahagsmálum eru á ábyrgð færeysku stjórnarinnar en Danir fara með utanríkis- og varnarmál.