Fyrr í sumar uppgötvaðist á bókasafni Columbia háskóla í New York áður óþekkt píanóverk eftir eitt af höfuðtónskáldum Íslendinga, Leif Þórarinsson. Um er að ræða tilbrigði við þjóðlegt en frumsamið stef, sem taka um 4 mín í flutningi. Á hljóðrituninni fannst líka viðtal við Leif sem er um margt forvitnilegt. Tónlistarfræðingurinn Árni Heimir Ingólfsson segir frá þessum merkisfundi í fyrstu Víðsjá vetrarins.
Jón Hallur Stefánsson gaf nýverið út Mansöngva, tvöfalda hljómplötu þar sem hann leikur
á píanó og syngur sína eigin texta, sem fjalla um ástina í öllu sínu veldi. Jón Hallur hefur verið ötull þýðandi undanfarin ár, auk þess að skrifa glæpasögur og ljóð. Hann lýsir sköpunarferli lagasmíðanna við það að vera í hálfgerðu vímuástandi, þar sem textarnir flæða inn í ómótaða melódíuna.