Forsendunefnd vegna Lífskjarasamningsins komst ekki að niðurstöðu í dag. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segist gera þá kröfu til viðsemjenda sinna að þeir sýni sveigjanleika þegar allt hafi breyst eins og raunin sé nú.
Íslenska ríkið var í dag dæmt til að greiða tveimur systkinum samtals rúmlega tvær milljónir króna, auk vaxta, í miskabætur vegna mistaka á Landspítalanum sem urðu til þess að faðir þeirra lést árið 2014.
Miðflokkurinn bætir við sig fylgi samkvæmt nýrri könnun MMR, en fylgi Samfylkingarinnar dalar.
Björgunarskipið Alan Kurdi er á leið til hafnar í Frakklandi með á annað hundrað manns sem var bjargað undan ströndum Líbíu um síðustu helgi.
Það ræðst væntanlega á morgun hver niðurstaða forsendunefndar kjarasamninga verður. Ekki er vilji innan verkalýðshreyfingarinnar að rifta samningum. Það myndi þýða að ekkert yrði úr boðuðum launahækkunum um áramótin. Hins vegar eru blikur á lofti að atvinnurekendur segi upp samningum. Þeir hafa ítrekað bent á að ekki sé innistæða fyrir boðuðum launahækkunum. Staðreyndin sé að forsendur kjarasamninga Lífskjarasamningsins séu brostnar miðað við það efnahagsástand sem ríkti þegar samningar voru undirritaðir í apríl í fyrra. Þorsteinn Víglundsson fyrrverandi þingmaður Viðreisnar og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins benti á þessa staðreynd í grein í Fréttablaðinu í dag. Arnar Páll Hauksson talaði við Þorstein Víglundsson.
Í gær greindust 57 ný kórónuveirusmit, tekin voru rúmlega fimm þúsund sýni og um hemingur þeirra sem greindust var í sóttkví. Reyndar er það svo að á fimmta þúsund eru komnir í sóttkví. Tveir eru á sjúkrahúsi með COVID-19 eins og verið hefur síðustu daga. Frá því í lok síðustu viku hefur á þriðja hundrað smita greinst. Þessi fjöldi smitaðra í gær kemur ekki óvart? Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra. Anna Kristín Jónsdóttir talaði við Víði Reynisson.
Norska flugfélagið Norwegian er enn á ný nær gjaldþrota og peningar sem ríkið lagði til í vor á þrotum. Því er unnið að björgun félagsins fyrir veturinn. Helst eru bundnar vonir við að norska ríkið kaupi hlut í félaginu. Gísli Kristjánsson sagði frá.